Um FFM

Flugumsjónarmenn voru ríkisstarfsmenn í upphafi

Í upphafi störfuðu íslenskir flugumsjónarmenn hjá ríkinu og voru þá í heildarsamtökum BSRB án þess að vera með sérstakt félag. Það voru síðan flugumsjónarmenn á Keflavíkurflugvelli sem ákváðu að stofna stéttarfélag, Félag íslenskra flugumsjónarmanna árið 1954. Á þeim tíma störfuðu flugumsjónarmenn einnig í Reykjavík. Þar sem Fundargerðarbækur félagsins fyrstu tvö árin eru glataðar er ekki til nákvæm dagsetning stofnfundarins. Fyrsti formaður félagsins var kosinn Ólafur Stefánsson. Það er fyrst til fundargerð frá aðalfundi sem haldin var í Valhöll við Suðurgötu, 3. desember 1956. Á þeim fundi voru átta félagsmenn mættir og Ólafur Stefánsson var endurkjörinn formaður.

Þar sem félagar í Félagi íslenskra flugumsjónarmanna voru aðilar að BSRB var samningsréttur ekki beint í þeirra höndum en kjaramálin voru samt ofarlega á baugi hjá félaginu, meðal annars samræming þeirra við kjör starfsmanna Flugmálastjórnar og íslensku flugfélagana. Önnur verkefni á fyrstu árum félagsins voru meðal annars að huga að vinnutímareglum og athuga hverjir væru gjaldgengir í félagið.

Næsti aðalfundur félagsins var einnig haldin í Valhöll þann 26. febrúar 1958. Óljóst er hve margir voru skráðir í félagið á þessum tíma en 21 maður hafði verið boðaður á fundinn, aðeins sex mættu. Eftir þennan fund var starfsemi félagsins í nokkurri lægð. Fundir voru þó haldnir af og til. Félagið öðlaðist síðan nýjan kraft eftir aðalfund sem haldin var 25. febrúar 1968 á Hótel Loftleiðum. Á þann fund voru boðaðir 22 starfsmenn Loftleiða og Flugfélags íslands. Á fundinn mættu 17 manns. Segja má að með þessum aðalfundi hafi Félag íslenskra flugumsjónarmanna komist í gang að nýju og hefur starfsemin verið stöðug síðan.

í dag eru í Félagi Flugumsjónarmanna 45 starfandi flugumsjónarmenn auk 13 sem annað hvort eru komnir á eftirlaun eða eru ekki starfandi í faginu

Lífeyrismál

Félag íslenskra flugumsjónarmanna er ekki með lífeyrissjóð og tilheyrir ekki neinum lífeyrissjóði. Félagsmenn geta ráðið hvert þeir fara með sín lífeyrismál.

Nám til réttinda flugumsjónarmanns.
Í upphafi fór nám flugumsjónarmanna fram hjá flugfélögum í Bandaríkjunum. Síðan voru stofnaðir skólar vestanhafs sem kenndu fagið og íslendingar sóttu. Í dag er hægt að velja milli Keilis og Flugskóla íslands, eftir það er tekið er próf hjá flugmálastjórn til útgáfu skírteinis flugumsjónarmanns, Ásamt starfi á vinnustað . Ef útskrifaður flugumsjónarmaður vinnur ekki við starfið í tvö ár þarf hann að þreyta prófið aftur hjá FMS.

Starf flugumsjónarmanns

Flugumsjónarmenn eru starfsmenn fyrirtækja sem eru í flugrekstri. Starf þeirra felst í því að undirbúa hvert flug sem farið er á vegum íslenskra flugfélaga, gera flugáætlanir, safna saman veðurupplýsingum ásamt NOTAM upplýsingum og koma þeim til flugmanna, annað hvort í Keflavík eða Reykjavík, eða hvar sem þeir eru að hefja flug.
Einnig þarf að tilkynna hvert flug til flugstjórnarmiðstöðva svæðanna sem flogið er um. Flugumsjónarmenn fylkjast með framgangi flugsins og veita flugmönnum nauðsynlegar upplýsingar ef þurfa þykir. Þá þarf að vera ljóst að vélin sé lögleg til flugs á þeirri leið sem hún á að fara í samvinnu við flugvirkja og annarra sem að fluginu koma. Það er líka í verkahring flugumsjónarmannsins að taka á seinkunum í fluginu og ákveða hvernig bregðast skuli við þeim. Yfirleitt starfa flugumsjónarmenn á flugvöllum, en þó eru til undantekningar á því. Með aukinni tölvu og fjarskiptatækni geta flugumsjónarmenn starfað mun víðar en á flugvöllum.

Til baka